anshu-a-E5xgkSFan84-unsplash
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Hugarþjálfari

Að baka árangur

Það er sunnudagsmorgun, kalt úti og ég fletti í gegnum kökubókina í leit að hinni fullkomnu köku til að baka. Girnilegasta kakan er fundin og ég er sannfærður um að þetta sé kakan sem mig langar í. Ég á allt hráefnið í kökuna og því er næsta skref að hefjast handa við að baka hana.

Á þessum tímapunkti er tímabært að taka augun af myndinni sem dróg mig að þeirri ákvörðun að baka þessa köku frekar en aðrar í bókinni og beina athyglinni að uppskriftinni. Þar þarf athyglin að vera í gegnum hvert einasta skref uppskriftarinnar þar til kakan er komin úr ofninum. Þannig tryggi ég mestu líkurnar á að mér takist að baka kökuna sem myndin er af í kökubókinni.

Hvert er ég að fara með þessu? Jú, ég er í raun að lýsa markmiðasetningaferlinu frá því að við ákveðum hvert við viljum komast og þar til við höfum náð markmiði okkar. Þegar markmiðið hefur verið ákveðið þarf að liggja fyrir skýr uppskrift að markmiðinu. Við þurfum að vita hvað við þurfum að framkvæma á hverjum einasta degi og á hverri einustu æfingu til að markmiðið náist. Það er ekki líklegt til árangurs að ætla að baka kökuna með því einungis að horfa á myndina og rembast við að baka kökuna eftir henni. Á sama hátt er ekki árangursríkt að ætla að baka árangur með því einu að hugsa stöðugt um lokaniðurstöðuna. Þegar ákveðið hefur verið hvaða árangri við ætlum að ná þarf að setja fókusinn á uppskriftina og þar þarf athyglin að vera þar til árangurinn kemur út úr ofninum. Þannig hámörkum við líkurnar á að árangurinn sem komi út úr ofninum sé jafn girnilegur og árangurinn á myndinni sem heillaði okkur í upphafi.

MÁ EKKI BJÓÐA ÞÉR AÐ DEILA PISTLINUM?