team-3373638_1920
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Heilsudagar vinnustaða

Í janúar og febrúar fyllast gjarnan líkamsræktarstöðvar landsins og heilsugangar matvöruverslanna. Fólk er uppfullt af eldmóði og vilja til að bæta sjálft sig. Það er ekki að ástæðulausu að þetta gerist í janúar og febrúar. Janúar og febrúar marka ákveðið upphaf. Þeir marka upphaf á nýju ári. Þegar við byrjum á einhverju nýju er sá hlutur autt og ómengað blað og það sem tilheyrði síðasta ári heyrir sögunni til. Þess vegna finnst okkur gott að taka til hjá sjálfum okkur á fyrstu mánuðum nýs árs og reyna að tileinka okkur hollara mataræði og aukna hreyfingu. Það hefur færst í aukana að starfsfólk vinnustaða taki höndum saman í þessum efnum með svokölluðum heilsudögum eða heilsuvikum. Þetta er frábær hugmynd. Við verjum jú stórum hluta dagsins innan veggja vinnustaðarins og það gefur því auga leið að vinnustaðurinn getur haft mikið að segja um það hversu vel okkur mun takast að tileinka okkur aukna hreyfingu eða hollara mataræði. Ef boðið er upp á hollan mat á vinnustaðnum þá auðveldar það okkur að tileinka okkur hollara mataræði en ef einungis væri að finna kex í skúffunum. Ef vinnufélagarnir eru í sömu vegferð og við að aukinni hreyfingu og rætt er um það á  kaffistofunni þá hvetur það okkur til að hreyfa okkur. Fræðslufyrirlestrar um markmiðasetningu, næringu eða annað tengt heilbrigðu líferni auka þekkingu starfsfólks á þeim hlutum og þannig hjálpa því að tileinka sér heilbrigðara líferni. Heilsudagar vinnustaða eru frábær leið til að styðja við bakið á starfsfólki sem er að reyna að auka hjá sér hreyfingu eða bæta hjá sér mataræði, því slík vegferð getur verið erfið en með samstarfsfólk með sér í liði verður hún auðveldari.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter