marathon-2366484_1920
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Hugleiðingar um aflýst Reykjavíkurmaraþon og „glötuð“ markmið

Á hverju ári eru fjölmargir sem setja sér markmið um að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu. Sumir setja sér markmið um að bæta tíma sinn í vegalengdum sem þeir hafa hlaupið áður, á meðan aðrir setja sér markmið um að ná að hlaupa nýjar vegalengdir sem þeir hafa ekki hlaupið áður. Margir þeirra sem eru með háleit markmið fyrir hlaupið byrja snemma að undirbúa sig og stunda æfingar af krafti allt sumarið. Nú er svo komið að hlaupi ársins hefur verið aflýst og mögulega er einhverjum sem líður eins og vinnan sem unnin hefur verið sé farin í vaskinn þar sem markmiðið um að hlaupa 21 km í Reykjavíkurmaraþoni ársins er ekki lengur möguleiki. Snýst þetta ekki allt um að ná markmiðinu, sýna sjálfum sér og öðrum á Instagram að maður hafi getað hlaupið 21 km í maraþoninu? Vonandi ekki, því megintilgangur markmiða er ekki að ná markmiðunum.

Tilgangur markmiða er leiðin en ekki endamarkið              

Megintilgangur markmiða er að ýta okkur til að vinna vinnu sem við hefðum öllu jafna ekki unnið án þeirrar gulrótar sem markmiðin eru. Tilgangur markmiðanna er leiðin sem við leggjum á okkur frá því við setjum okkur markmiðið og þar til við náum markmiðinu. Þessi leið skilar okkur framförum og getur haft fjölmarga jákvæða hluti í för með sér. Þú sem settir þér markmið um það í vor eða snemma í sumar að ætla að hlaupa 21 km í Reykjavíkurmaraþoninu og hefur hlaupið samviskusamlega þrisvar sinnum í viku til að undirbúa þig fyrir hlaupið hefur að öllum líkindum fengið nánast allt útúr markmiðinu sem þú getur. Þú hefur bætt líkamlegt þol þitt, sömuleiðis hafa æfingahlaupin líklega skilað þér betri andlegri líðan og meira sjálfstrausti, loks má leiða að því líkum að þessir ávinningar æfinganna sem þú lagðir á þig hafi gert þig að betra foreldri, betri vini og jafnvel betri starfsmanni. Þetta er hinn raunverulegi tilgangur markmiða.

Horfðu á kílómetrana sem þú kláraðir frekar en metrana sem þú áttir eftir              

Þegar finnur fyrir svekkelsi yfir því að fá ekki að ná því markmiði þínu að klára 21 km í Reykjavíkurmaraþoninu skaltu staldra við og hugsa: Hverju hefur vinnan sem ég hef lagt á mig frá því ég setti mér markmiðið skilað mér? Horfðu á leiðina sem þú ert búin/n að fara og hvaða ávinninga hún hefur haft í för með sér, frekar en að horfa á þá örfáu metra sem þú átt eftir í mark og færð ekki að klára. Þá skilur þú að markmiðið sem þú settir þér í vor hefur nú þegar gert sitt, fengið þig til að leggja á þig vinnuna sem hefur svo ótrúlega jákvæð áhrif á þig og þú munt vonandi halda áfram að vinna. Það að fá ekki að pósta mynd af sér með peninginn um hálsinn á Instagram og fá „like“ í auka-verðlaun skiptir engu máli þegar horft er á stóru myndina. Að lokum er þó vert að hvetja hlaupara til að halda sínu striki og finna samþykktar leiðir til að hlaupa til góðs svo þeir peningar sem safnast hafa til styrktar góðum málefnum renni nú örugglega þangað sem þeirra er svo mikil þörf.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter