pexels-rfstudio-3621104
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Hver viltu vera?

Í fótboltaleiknum er mikilvægasta verkefni leikmannsins að framkvæma sjálfan sig, framkvæma sín gildi, sinn karakter, sinn leik. Þetta er hans akkeri í 90 mínútum af stórsjó rangra dómaraákvarðana, eigin mistaka, verðurfars og misgáfulegra athugasemda úr stúkunni. Þegar leikmaður skilgreinir sín gildi, sitt akkeri, spyr hann sig eftirfarandi spurninga: Hver vil ég vera? Fyrir hvað vil ég að mín verði minnst sem leikmaður? Hvaða karaktereinkenni vil ég að fólkið í stúkunni sjái í mínum leik? Ekkert er mikilvægara fyrir frammistöðu og arfleifð leikmannsins en að hann skilji svarið við þessum spurningum eftir á vellinum.

Það getur verið mjög erfitt að framkvæma sín gildi í ákveðnum aðstæðum. Leikmaður sem vill standa fyrir jákvæðni og útgeislun gæti þurft mikinn andlegan styrk til að framkvæma þessi gildi sín þegar liðið er 4-0 undir og ekkert gengur upp. Þrátt fyrir að leikmanninn langi mest til þess að öskra úr sér lungun af reiði og fórna höndum áttar hann sig á því að leiðin inn í leikinn á ný er að vera trúr sjálfum sér og framkvæma sjálfan sig sama hversu erfitt það getur reynst. Með andlegum styrk tekst leikmanninum að framkvæma jákvæðni og útgeislun þrátt fyrir slæma stöðu í leiknum vegna þess að uppgjöf er ekki það sem hann vill standa fyrir.

Gildi eru leiðarvísir fótboltamanns í leik og að mati pistlahöfundar mikilvægasta verkfærið sem leikmaður á í sínu verkfæraboxi. Þó gildi séu mikilvæg frammistöðu og andlegum stöðugleika fótboltamanns í leik eru gildi þó enn mikilvægari þessum leikmanni utan vallar. Kröfuharður heimur atvinnumanns í fótbolta sem uppfullur er af andlegum áskorunum er ekki síðri stórsjór en fótboltaleikurinn. Þar þarf leikmaðurinn að hafa skýr gildi sem stýra öllum hans ákvörðunum, viðhorfum og hegðun í daglegu lífi. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er einstaklingurinn fyrst og fremst dæmdur af karakternum sem hann framkvæmir á degi hverjum og það er það sem hans verður minnst fyrir, ekki fyrirgjöfunum, mörkunum, tæklingunum eða sigrunum.

Það er ljóst að ungir knattspyrnumenn og drengir þurfa að átta sig á að raunveruleg arfleifð þeirra verður ekki óaðfinnanleg skæri, fjöldi eða glæsileiki marka eða fjöldi titla sem þeir vinna heldur karakterinn sem þeir hafa að geyma og sína í verki og máli á hverjum degi, á æfingum, í leikjum, í skólanum, í vinnunni og í öllum sínum samskiptum. Foreldrar þurfa að átta sig á því að fjöldi marka eða stoðsendinga er ekki mælikvarði á vel heppnað uppeldi heldur karakterinn sem barnið hefur að geyma. Því ættu foreldrar að leggja meiri áherslu á það í samskiptum sínum við drengina sína að þeir sýni góðan karakter í hvívetna heldur en að þeir skori mörk eða vinni fótboltaleiki. Loks þarf öll íþróttaþjálfun að leggja aukna áherslu á gildisvinnu innan sem utan vallar því slík vinna skilar ekki bara betra íþróttafólki heldur það sem meiru máli skiptir öflugri og betri einstaklingum út í samfélagið.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter