pressa
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Láttu pressu stóru leikjanna vinna með þér

Stórir leikir, leikir þar sem mikið er undir, titill, áframhaldandi vera í deild þeirra bestu eða sæti í næstu umferð úrslitakeppni, eru kjöraðstæður fyrir þig til að ná fram þinni bestu frammistöðu á ferlinum. Stórir leikir eru öðruvísi en aðrir leikir. Mikilvægi þessarra leikja, stemmningin í kringum þessa leiki og pressan að sýna góða frammistöðu eykur adrenalínflæðið í líkamanum þínum. Þetta aukna adrenalínflæði færir þér auka orku sem þú hefur í raun ekki aðgang að nema í leikjum þar sem mikið er undir. Sé þessari auka orku beint í réttan farveg nýtist hún þér á þann hátt að þú hleypur hraðar en í öðrum leikjum, hoppar hærra, skýtur fastar og ert orkumeiri í öllum þínum aðgerðum í vörn og sókn. Pressa sem fylgir stórum leikjum hefur sömuleiðis í för með sér að leikurinn fær stærri skammt af þinni athygli. Það er fátt annað sem kemst að hjá þér í aðdraganda leiksins en leikurinn stóri. Líkt og með auka orkuna sem í boði er í stórum leikjum er mikilvægt að þessi mikla athygli sem leikurinn fær í huga þínum sé beint í réttan farveg. Sé það gert gætiru átt von á  að upplifa einbeitingu sem þú hefur ekki upplifað áður á íþróttavellinum, svokallað flæði (e. flow), þar sem þú virkar niðursokkinn í hvert einast augnablik leiksins, hvert augnablik fær alla þína athygli og þér finnst þú hafa fulla stjórn á þinni frammistöðu í leiknum. Sé auka orkunni og auka athyglinni sem fylgir stórum leikjum beint í réttan farveg eru stórir leikir leikirnir þar sem þú skilar frammistöðu sem þú manst alla tíð, frammistöðu sem er betri en nokkur önnur frammistaða sem þú hefur sýnt. Skoðum hver lykillinn er á bakvið það að notfæra sér pressuna í stórum leikjum.

Pressa er afl. Það er afl sem getur unnið með þér og afl sem getur unnið gegn þér. Lykillinn að því að láta pressuna vinna með þér er rétt viðhorf gagnvart pressunni og þeirri spennu í líkamanum sem pressan býr til. Ef þú lítur á pressuna sem óvin á vellinum, eitthvað sem sé slæmt og þú telur þig þurfa að losna við eru allar líkur á að pressan muni vinna gegn þér. Með þessu viðhorfi býrð þú til ótta hjá þér gagnvart fullkomlega eðlilegum tilfinningum þegar um stóra leiki er að ræða. Óttinn við pressuna gerir það að verkum að þú ferð að beina athyglinni að því að losa þig undan þessum eðlilegu tilfinningum. Af stað fer mikil barátta innra með þér þar sem þú reynir að sannfæra þig um að þetta sé bara eins og hver annar leikur. Fljótlega kemstu að því að þetta er barátta sem þú vinnur ekki. Þú veist að þetta er ekki eins og hver annar leikur og systurnar Pressa og Spenna neita að fara. Viðhorfið sem þú hefur byggt upp til pressunar og spennunar heldur áfram að kítla óttann þegar út í leikinn er komið og athygli þín festist á hausnum á þér. Þú finnur fyrir kvíða yfir því að vera kvíðin/n og ert upptekin/n af því að þér líði ekki vel. Þú nálgast leikinn af ótta sem birtist í því að þú passar þig, heldur aftur af þér, nýtir ekki orkuna sem pressan býður þér uppá. Þú ferð að beina athyglinni að framkvæmd einföldustu atriða íþróttarinnar, atriða sem þú lærðir á þinni fyrstu æfingu. Körfuboltamaður vandar sig við að drippla eða skjóta, handboltakona vandar sig við að senda einfalda sendingu. Þetta er færni sem þú ert löngu búin/n að læra að gera á sjálfstýringu og þú framkvæmir best án þess að hugsa um það. Þegar þú ætlar að fara að taka yfir sjálfstýringuna á þessum einföldustu færniþáttum þá verður framkvæmd þeirra hikandi og vandræðaleg, það leiðir til slæmrar frammistöðu. Þegar þú lítur svo á að pressan sem fylgir stóra leiknum sem þú ert að fara að spila sé óvinur þinn ertu að búa þér til ótta, ótta gagnvart hausnum á þér, þessi ótti hefur svo þær fyrrgreindu afleiðingar í för með sér að frammistaðan í leiknum verður léleg og áhorfendur sjá leikmann sem brotnar undan pressu.

Stórir leikir hafa í för með sér pressu og meðfylgjandi spennu, það er eðli þeirra, óumflýjanlegt. Pressan tekur gjarnan á sig mynd óþæginlegra tilfinninga. Óþægindi í maga, vöðvaspenna og kvíðahugsanir eru alþekkt einkenni sem jafnvel besta íþróttafólk í heimi upplifir í aðdraganda stórra leikja eða keppna. Lykillinn er að taka þessum tilfinningum opnum örmum og leyfa sér að upplifa þær. Takist þér að tileinka þér það viðhorf að pressan, spennan og allar óþæginlegu tilfinningarnar séu hluti af því stórkostlega tækifæri sem felst í að spila stóra leiki og að það sé eitthvað sem þú þurfir ekki að losa þig undan þá lætur þú af þeirri baráttu við hausinn á þér sem oftast veldur mestu óþægindunum og mesta óttanum. Þú leyfir öllu að vera eins og það er og í staðinn fyrir að vinna gegn þeirri orku sem pressan býr til innra með þér leyfir þú henni að byggjast upp. Athyglinni, sem áður var föst á hausnum á þér og því að berjast við hann, beinir þú nú allri að því að setja orkuna sem býr í þér í þá hluti sem þú hefur fulla stjórn á, svo sem vinnusemi, baráttu, þor, jákvæðni eða leikgleði og treystir sjálfstýringunni fyrir því að sjá um einföldu hlutina. Pressan hefur gefið þér orku og athygli sem er meiri en þú upplifir í öðrum leikjum og það skilar þér því að þú framkvæmir alla þá hluti sem eru undir þinni stjórn af meiri ákafa en í öðrum leikjum og einbeitingin er betri.

Að spila stóra og mikilvæga leiki eru forréttindi sem aðeins völdu íþróttafólki gefst tækifæri til að upplifa. Lærdóminn sem fellst í því að spila slíka leiki öðlast þú hvergi annars staðar. Úrslitaleiki æfir þú hvergi nema í úrslitaleikjum. Til þess að njóta upplifunarinnar og taka sem mestan lærdóm af stóra leiknum er nauðsynlegt að upplifa leikinn allan, líka óþæginlegu tilfinningarnar sem við merkjum sem pressu. Njóttu þess að finna fyrir pressunni því hún er hluti af stærri og einstakri upplifun.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter