forsíða
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Markmiðasetning 2/4

Þegar sjálfskoðun hefur gefið þér skýra mynd af því hvar þú ert stödd/staddur í dag skaltu ákveða hvert þú vilt komast. Það er annar hluti markmiðasetningar. Í þessum hluta markmiðasetningarinnar er stuðst við sjálfskoðun fyrsta hluta til að átta okkur á hvaða hluti mikilvægast er að við bætum í okkar fari. Hvaða hlutum vinnan okkar ætti að beinast að. Hér eru 2 grunnspurningar þessa hluta markmiðasetningar.

Hvaða 2-3 þætti í mínu fari er mikilvægast að ég styrki á þessum tímapunkti?

Hvert vil ég komast með þessa 2-3 þætti? Hvaða árangri vil ég ná í þessum þáttum?

Á þessum tímapunkti setur þú þér markmið fyrir þá 2-3 þætti sem þú hefur ákveðið að sé mikilvægast að þú styrkir núna. Markmiðasetning er meiri kúnst en margir halda. Ef markmiðin þín eiga að bera árangur eru nokkur lögmál sem mikilvægt er að hafa í huga. Hér eru nokkur þessarra lögmála.

 

               Hafðu markmiðið skýrt, afmarkað og mælanlegt

Ef hægt er að deila um það hvort markmiðinu hafi verið náð eru allar líkur á að hægt hefði verið að standa betur að markmiðasetningunni. Það er mikilvægt að markmiðin séu klippt og skorin og enginn vafi leiki á því hvenær þeim er náð og hvenær ekki.   

          

               Settu markið hátt

Settu markið hátt. Því hærra sem þú setur markið, því harðar fær það þig til að leggja þig fram. Það er til lítils að setja sér markmið sem næst með lítilli vinnu.

 

               Vertu viss um að þú hafir trú á að geta náð markmiðinu

Þó ég segi að markmiðið eigi að vera háleitt, þá má það ekki vera það háleitt að þú trúir því ekki að með mikilli vinnu getiru náð markmiðinu. Ef þú hefur ekki trú þá er markmiðið ónýtt og þú skalt setja þér nýtt.

 

               Hafðu tímamörk á því hvenær þú ætlar þér að vera búin/n að ná markmiðinu

Það er mikilvægt að þú setjir einhver tímamörk á það hvenær þú ætlar að hafa náð markmiðinu. Það gerir markmiðið raunverulegra og setur hæfilega pressu á þig að ná því.

 

               Hafðu markmiðið sýnilegt

Það að skrifa markmiðið niður og hafa á stað þar sem þú sérð það reglulega kann að hljóma sem minniháttar smáatriði. Það er hins vegar ótrúlega mikilvægt að vera með markmiðið skrifað og geymt á stað þar sem þú ert reglulega minnt/ur á það.

Að loknum þessum öðrum hluta markmiðasetningarinnar ættir þú að vera komin/n með skýrt, afmarkað, tímasett og mælanlegt markmið fyrir hvern af þeim þáttum sem þú telur að sé mikilvægast að þú styrkir á þessum tímapunkti. Næsta skref er að setja upp plan um hvað þú þarft að gera til að ná þessum markmiðum. Það er efni næsta hluta þessarrar röð pistla um markmiðasetningu.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter