aaron-doucett-lX_JEzkChA0-unsplash
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Hugarþjálfari

Núvitund í íþróttum

Það hefur verið ríkjandi viðhorf í nokkurn tíma að til þess að ná hámarksárangri í íþróttum eða líkamsrækt þurfi að hugsa á ákveðinn hátt og að ákveðnar tilfinningar séu óvinir velgengni á þessum sviðum. Íþróttafólki er sagt að það þurfi að láta sér líða vel á vellinum, að það verði að vera jákvætt, og að það megi aldrei sýna vott af ótta eða efasemdum um sjálft sig. Almenningi sem stundar líkamsrækt er sagt að einungis náist árangur með jákvæðri hugsun og með því að hafa gaman af sinni líkamsrækt. Jafnvel íþróttasálfræðin hefur mælt með notkun verkfæra sem eiga að hjálpa fólki að breyta sínum hugsunum og tilfinningum frá því að vera neikvæðar til þess að vera jákvæðar. Á síðustu misserum hefur gagnsemi þessarra verkfæra verið dregin verulega í efa og nýjar hugmyndir um tengsl hugarástands og árangurs í íþróttum litið dagsins ljós. Kynnumst núvitund í íþróttum.

Sú nýja bylgja sem nú þegar hefur notið mikilla vinsælda í íþróttaheiminum er byggð upp á aldagömlum kenningum um núvitund, og er íþróttafólk í miklu mæli farið blanda núvitundarþjálfun inn í æfingaáætlanir sína. Þessar „nýju” hugmyndir ganga útfrá því að bæði jákvæðar og neikvæðar hugsanir og tilfinningar séu óumflýjanlegur hluti af okkar mannlega eðli, hluti af því flæði hugsana og tilfinninga sem fara um hug okkar á hverjum degi. Þegar íþróttamaður er farinn að berjast gegn tilteknum (eðlilegum) hugsunum eða tilfinningum þá er sú barátta farin að taka einbeitingu og orku frá íþróttamanninum og þannig skaða frammistöðu hans. Núvitundarþjálfun fer því þvert gegn gömlum aðferðum íþróttasálfræði sem gengu útá að eyða eða breyta neikvæðum hugsunum og tilfinningum.

Núvitundarþjálfun miðar að því að byggja upp þol gegn óþægindum, leiðindum, eða öðrum neikvæðum hugsunum og tilfinningum. Í raun gengur þessi þjálfun útá að þjálfa upp þann eiginleika að taka öllu því sem núið býður upp á af yfirvegun og samþykki og beina orku og athygli í það verkefni sem verið er að leysa í stað þess að vera í stöðugri baráttu við hugsanir og tilfinningar sínar. Þannig getur íþróttamaður skilað frábærri frammistöðu óháð því hvaða hugsanir búa innra með honum, og sá sem stundar líkamsrækt getur lagt sig allan fram og náð árangri þrátt fyrir að finnast líkamsræktin leiðinleg. Í raun losar þetta nýja viðhorf einstaklinginn undan þeim áhyggjum og kvíða sem hann hafði yfir því að vera með þessar „slæmu” hugsanir og tilfinningar sem hann losnaði ekki við.

Eru þessar hugmyndir ekki rökréttar? Er það ekki heimtufrekja að ætlast til þess að við getum valið okkur að lifa einungis jákvæðar tilfinningar þessa lífs og forðast þær neikvæðu sem eru alveg jafn mikill hluti af lífinu? Eigum við ekki að hætta að leggja ofuráherslu á að forðast óþægindi öllum stundum og ætlast til þess að allt sem við gerum þurfi að vera skemmtilegt, þæginlegt og uppbyggjandi? Veldur það okkur ekki bara ómældri vanlíðan að vera stöðugt að strekkjast við að leita í skemmtun og þægindi og forðast stöðugt leiðindi og óþægindi? Ættum við ekki frekar að einbeita okkur að því að sætta okkur við óþægindin, leiðindin og pirringin? Ættum við ekki bara að kynnast þessum félögum uppá nýtt, leyfa þeim að vera hjá okkur og athuga hvort þeir séu nokkuð svo slæmir eftir allt saman.

MÁ EKKI BJÓÐA ÞÉR AÐ DEILA PISTLINUM?