background-balance-beach-289586
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Núvitund

Núvitund (mindfulness) er sá eiginleiki að vera fyllilega meðvitaður um umhverfi sitt, hugsanir og tilfinningar á hverju augnabliki. Þessi meðvitund einkennist af yfirvegun og æðruleysi gagnvart þeim fjölmörgu hugsunum og tilfinningum sem sækja á okkur á degi hverjum. Daglega stöndum við okkur að því að láta stjórnast af hugsunum og tilfinningum sem taka stjórnina svo hratt að okkur gefst ekki tækifæri til að vega og meta hvort það sem við erum að gera sé rétt eða rangt, heimskulegt eða gáfulegt. Við stöndum okkur að því að horfa á símana okkar undir stýri þar til við loks áttum okkur á því að það sé heimskulegt. Við pöntum okkur Bernaiseborgara og kók og föttum svo nokkru seinna, „vel” mett, að líklega hefði verið hollara og skynsamlegra að velja sér kjúklingasalat og vatn. Loks ákveðum við í þágu þægindanna að fresta æfingu dagsins þar til seinna. Komin upp í sófa að horfa á sjónvarpið hugsum við síðan að líklega hefði maður átt að drífa sig á æfingu, heilsunnar vegna.

Með núvitundarþjálfun getum við aukið meðvitund okkar um þessar hugsanir og tilfinningar sem oft taka stjórnina ósjálfrátt. Við áttum okkur fyrr á þeim, sem gerir okkur betur kleift að vega og meta á augnablikinu hvað sé okkur fyrir bestu að gera, hvað sé rétt, hvað sé rangt, hvað sé gáfulegt og hvað sé heimskulegt. Við áttum okkur fyrr á því að í símanum er ekkert svo mikilvægt að ekki megi bíða þar til við erum komin á leiðarenda. Við pöntunarborðið áttum við okkur á því að eins bragðgóður og Bernaiseborgarinn getur verið er líklega skynsamlegra í þetta skiptið að velja hollari kost. Loks drífum við okkur á æfingu, því áður en hugsunin um að þæginlegt og áreynslulaust sé að taka sófann og sjónvarpið fram yfir æfingu tekur ósjálfrátt völdin, hugsum við með okkur að heilsusamlegra sé að drífa sig á æfingu og að tilfinningin eftir æfinguna verði frábær.

Eins og hljómsveitin Sigurrós komst svo snilldarlega að orði þá syngur vitleysingur inni í okkur, vitleysingur sem við þurfum að æfa okkur í að taka eftir af yfirvegun og æðruleysi. Þannig getum við rofið þá ósjálfráðu stjórn sem þessi vitleysingur hefur á gjörðum okkar og lifað heilbrigðara lífi í meiri sátt við sjálf okkur.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter