abstract-asphalt-black-186405
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Ótti við mistök

Íþróttafólk sem óttast að gera mistök fer gjarnan mjög óæskilegar leiðir til að forðast þau. Það forðast að koma sér í aðstæður þar sem það gæti gert sýnileg mistök. Þetta getur birst í því að körfuboltamaður láti lítið fyrir sér fara í leik, taki ekki af skarið og láti liðsfélaga sína um að keyra að körfunni eða taka skotin. Önnur möguleg birtingarmynd er að handboltamaður hlaupi ekki fram í hraðaupphlaup þar sem fyrirséð er að hann komist í gott færi sem hann gæti klúðrað. Einnig er það auðveld leið fyrir knattspyrnumann sem vill forðast það að missa boltann að bjóða sig ekki í opin svæði til að fá boltann. Loks getur ótti íþróttafólks við að gera mistök orðið svo mikill að það geri sér upp meiðsli eða veikindi til að forðast það að þurfa að keppa með tilheyrandi hættu á að gera mistök í keppninni. Af þessu má ljóst vera að ótti við mistök hefur slæm áhrif á frammistöðu íþróttafólks, hamlar framför þess, og dregur úr ánægju þess við að iðka íþrótt sína.

Oft á ótti við mistök rætur sínar að rekja til þeirra þjálfunaraðferða sem er beitt og þess hugsunarháttar sem er ríkjandi í því umhverfi sem íþróttamaðurinn æfir í. Alist íþróttamaður upp við það að mistök séu slæm og hafi neikvæðar afleiðingar, svo sem skammir, refsingar eða neikvæða líkamstjáningu frá þjálfurum, samherjum eða öðrum, þá eru allar líkur á því að með tímanum þrói íþróttamaðurinn með sér ótta við að gera mistök. Til þess að forðast þessar neikvæðu afleiðingar mistaka grípur íþróttamaðurinn gjarnan til þeirra óæskilegu leiða sem lýst er hér að ofan.

Þjálfarar og aðrir sem koma að mótun íþróttafólks þurfa að leiða hugann að því hvaða viðhorfi gagnvart mistökum þeir séu að stuðla að hjá sínu íþróttafólki. Íþróttafólk tekur framförum með því að taka af skarið, stíga útfyrir þægindahringinn, prófa sig áfram og láta reyna á sína hæfileika til fulls. Það er hins vegar óumflýjanlegt að slíkt íþróttafólk geri mistök á leið sinni að fullkomnun. Þess vegna ættu þjálfarar og aðrir að taka mistökum sem sjálfsögðum og mikilvægum hlut í lærdómsferlinu, og í raun að fagna því gullna tækifæri sem þeim gefst til að sýna íþróttamanninum hvað hafi farið úrskeiðis og hvað sé árangursríkara að gera í aðstæðunum. Þjálfarar ættu að styðja við alla viðleitni íþróttafólks til að stíga útfyrir þægindahringinn og leggja sig fram um að takmarka neikvæðar afleiðingar mistaka.

Thomas Edison sagðist aldrei hafa mistekist í þróun sinni á ljósaperunni heldur hafi hann einungis fundið 10.000 leiðir sem virkuðu ekki, og Michael Jordan segir þau fjöldamörgu mistök sem hann hafi gert á sínum ferli vera ástæðuna fyrir því að hann hafi náð þeim árangri sem hann náði. Heilbrigt og jákvætt viðhorf gagnvart mistökum er besta leiðin til að fyrirbyggja ótta við mistök. Ótta sem hefur slæm áhrif á frammistöðu, hamlar framför, og dregur úr ánægju við íþróttaiðkun.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter