handball-g0e940b6eb_1920
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Pressa, blessun eða böl?

Það er óhætt að segja að sjaldan eða aldrei hafi væntingar til íslenska karlalandsliðsins verið meiri fyrir stórmót í handbolta en fyrir mótið sem bíður okkar allra nú um miðjan janúar. Væntingar almennings skapa pressu á leikmenn og þjálfara liðsins og því meiri sem væntingarnar eru því meiri verður pressan, en er pressan blessun eða böl? Leikmenn og þjálfarar geta haft áhrif á það hvort pressan verði óvinur sem vinni gegn liðinu eða vinur sem skerpir einbeitingu leikmanna, gefur þeim orku og ákveðni. Skoðum þetta betur!

Væntingar

„Þú átt að vinna í lottóinu á laugardag”. Hér er gerð til þín, ágæti lesandi, krafa sem þú finnur strax að er utan þinnar stjórnar að uppfylla. Ef þú finndir fyrir virkilegri alvöru á bakvið slíka kröfu er líklegt að krafan kallaði fram hjá þér óöryggi vegna þess að verið er að pressa á þig að uppfylla kröfur sem eru ekki undir þinni stjórn. Þú getur aldrei verið fullviss um að þú munir uppfylla slíkar kröfur og sú óvissa skapar óöryggi. Kröfunni um að vinna í lottóinu má líkja við þær kröfur, eða öllu heldur væntingar, sem gerðar eru til íslenska liðsins í aðdraganda mótsins sem framundan er. Þær snúa að niðurstöðu leikja og niðurstöðu mótsins. Ísland á að vinna þennann leikinn eða hinn, vænst er að markmenn verji 30% skota sem koma á markið, hornamennirnir eiga að skora úr 70% skota og við viljum að Ísland tryggi sér verðlaun á mótinu. Þó svo að við viljum stundum telja okkur trú um annað þá eru slíkar kröfur ekki undir fullri stjórn leikmanna eða þjálfara að uppfylla. Það eru ótal ytri og innri þættir sem leikmenn og þjálfarar hafa enga stjórn á sem hafa áhrif á hver útkoma leiksins verður. Orð mín skal ekki skilja svo að væntingarnar til íslenska liðsins séu á einhvern hátt óæskilegar eða ósanngjarnar. Þvert á móti eru væntingarnar jákvæð afleiðing af þeirri frammistöðu sem leikmenn liðsins hafa sýnt í sínum félagsliðum og þeim afrekum sem þeir hafa unnið að undanförnu. Inntak þessa pistils er að benda á að pressa þarf ekki að vera óvinur til að óttast og að útskýra með hvaða hætti þjálfarar og leikmenn geta látið pressuna sem fylgir miklum væntingum vera blessun frekar en böl, því það snýst um hugarfarslega getu leikmanna. Taki leikmenn og þjálfarar við þeim væntingum sem snúast um óstjórnanlega niðurstöðu og lýst var hér að framan fullkomlega hráum og láta pressuna snúast um að vinna leiki, vera með „góða skotnýtingu” eða ná tilteknu sæti í mótinu, ef þetta verða verkefnin sem eiga hug leikmanna allan í aðdraganda leikja, eru líkurnar þær að pressan verði böl. Líkt og pressan á að vinna í lottóinu getur slík pressa kallað fram óöryggi hjá leikmönnum og þjálfurum og jafnvel ótta gagnvart leiknum sem hefur neikvæð áhrif á frammistöðu.

Að mynda jákvæða pressu úr væntingum um óstjórnanlega niðurstöðu

Nú ætla ég að gera til þín aðra kröfu og biðja þig um að taka eftir hvernig pressan sem fylgir þeirri kröfu er allt annars eðlis en pressan sem fylgir því að „eiga að vinna í lottóinu”. Nýja krafan er eftirfarandi: „Þú verður að fara og kaupa lottómiða”. Hér er verið að pressa á þig að framkvæma nokkuð sem er fyllilega undir þinni stjórn. Slík pressa hefur allt önnur áhrif en pressan á að vinna í lottóinu. Í stað óöryggis finnur þú fyrir hvatningu, mótivasjón og aukinni einbeitingu á verkefnið sem þér er ætlað að leysa. Hér er komið að listinni að láta utanaðkomandi pressu á að vinna í lottóinu verða að innri pressu á að kaupa lottómiðann og samþykkja um leið þá staðreynd að endanlega niðurstaða lottóútdráttsins verður alltaf að fá að koma í ljós.

Hugarfarsleg hæfni leikmanna

Almennar væntingar til strákanna okkar og umræða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum mun áfram snúast um óstjórnanlega niðurstöðu einstakra leikja og mótsins i heild. Það ætti hins vegar ekki að þurfa að hafa slæm áhrif á leikmenn liðsins eða þjálfara heldur þvert á móti geta miklar væntingar komið liðinu til góðs. Þar kemur hins vegar að hæfni leikmanna til að umbreyta utanaðkomandi pressu á óstjórnanlega niðurstöðu í pressu á stjórnanleg lykilatriði í leik liðsins. Allri pressu sem leikmenn og þjálfarar finna fyrir frá þjóðinni um að „eiga að vinna”, „mega ekki klikka” eða „eiga að komast í undanúrslit” ætti að verða að pressu í hugum leikmanna sem snýst um að „gefa allt”, undirbúa sig eins vel og kostur er, sýna baráttu og talanda og umfram allt að sýna þau karaktereinkenni sem saman hafa gengið undir heitinu „íslenska hjartað”. Krafan um „íslenska hjartað” er krafan um að fara og kaupa lottómiðann. Búi leikmenn og þjálfarar yfir þeirri hugarfarslegu hæfni að geta tekið við væntingum þjóðarinnar og umbreytt þeim í pressu á að framkvæma íslenska hjartað á hverju augnabliki leiksins, án þess að velta sér of mikið uppúr mögulegri niðurstöðu leiksins eða mótsins, þá verður pressan sem er að byggjast upp í þjóðfélaginu blessun sem virkar hvetjandi, mótiverandi og skerpir einbeitingu leikmanna.

Miðinn er lykillinn

Frábært lið sem leggur alla áherslu á að kaupa lottómiðann, samþykkir máttleysi sitt gagnvart lottóvélinni sjálfri og er tilbúið að láta vaða á óvissuna um hvort boltinn fari inn, leikurinn vinnist eða hvort liðið verði heimsmeistari er svo kannski bara ansi líklegt til að vinna í lottóinu. Handbolti er nefnilega eftir allt saman frábrugðinn lottó að því leiti að frábær lið sem kaupa lottómiðann eru líklegri til að vinna en lið af minni gæðum. Miðinn verður hins vegar alltaf lykillinn að vinningnum, lið sem ekki þorir að kaupa miða af ótta við að tapa, vinnur ekki.

Áfram Ísland

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter