girl-watching-video-using-imac-4144225
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Ráð fyrir þjálfara í samkomubanni

Eins og flestir hafa eflaust áttað sig á þýðir samkomubann ekki frí að neinu leiti. Íþróttaþjálfarar eru enn þjálfarar og þessir tímar krefjast þess að íþróttaþjálfarar líkt og aðrar stéttir finni nýjar leiðir til vinna vinnuna sína og sú vinna getur verið orku- og tímafrek. Hér eru nokkur ráð fyrir þjálfara sem vilja vera vissir um að skila sínu starfi vel á meðan samkomubann ríkir.

Verið í reglulegum samskiptum við iðkendur ykkar

Það skiptir miklu máli að íþróttafólk haldi í rútínu eins og kostur er. Mikilvægt er að halda áfram fara snemma að sofa, vakna snemma, borða vel og að halda áfram æfingum. Þjálfarar geta hjálpað iðkendum sínum að halda í þessa rútínu með því að veita þeim aðhald, mata þá af æfingum og öðru efni og taka stöðuna á þeim reglulega. Þjálfarar ættu að hafa í huga að hér er ekki aðeins átt við það að dæla á iðkendur heimaæfingum heldur að benda þeim einnig á fræðandi lesefni, myndbönd eða hlaðvarpsþætti.

Þjálfarar ættu að halda uppi virkni og samskiptum við iðkendur sína þannig að þeir finni að vinnan sé enn í gangi þrátt fyrir samkomubann, að ekkert hafi breyst nema að því leiti að hópurinn geti ekki æft saman á æfingasvæði. Þetta er hægt að gera með því að vera í tölvupóstsamskiptum eða símasamskiptum við iðkendur. Einnig mætti láta iðkendur skila inn stuttri skriflegri skýrslu reglulega um hvaða vinnu þeir hafi unnið heimafyrir yfir tiltekið tímabil. Í þessum samskiptum er mikilvægt að þjálfarar gleymi ekki að spyrja hvernig iðkendum líður. Þjálfarar ættu að láta sig iðkendur sína varða.

Reynið að halda iðkendum ykkar upplýstum um framhaldið

Ef fyrir liggur áætlun um hvenær æfingar hefjist að nýju eða hvenær frestuð mót eru sett á ættu þjálfarar að gefa iðkendum sínum þessar dagsetningar með fyrirvara um að hlutir gætu breyst. Þetta dregur úr óvissu iðkenda þó það eyði henni ekki alveg, auk þess sem þetta getur gefið iðkendum tilhlökkunarefni sem getur skipt miklu máli uppá andlega líðan og áhugahvöt þeirra. Mikilvægt er að gleyma samt ekki að setja fyrirvara um að hlutir gætu breyst við slíkar tilkynningar.

Leggið aukna áherslu á andlega heilsu

Það er mjög breytilegt hvernig fólk bregst við ástandinu andlega. Suma bítur þetta ekkert á, á meðan einangrunin og raskið sem hefur orðið getur dregið verulega úr öðrum andlega. Því er mikilvægt að leggja áherslu á það við iðkendur sýna að hlúa vel að sér andlega. Það má gera með því að halda uppi samskiptum við vini í gegnum Facetime, Skype eða þess háttar, finna uppá skemmtilegum hlutum að gera, stunda göngutúra, útiæfingar eða aðra útiveru, sofa vel og borða vel. Loks mælir Haus hugarþjálfun með hugleiðslu sem verkfæri til að styrkja andlegu hliðina. Hugleiðslan hjálpar okkur að díla betur við þær hugsanir og tilfinningar sem við höfum og færir okkur aukna ró gagnvart hlutum sem við höfum ekki stjórn á.

Ekki gleyma sjálfum ykkur

Það er mikilvægt að þjálfarar hugsi vel um sjálfa sig og allt sem mælt hefur verið með hér að framan að iðkendur ættu að tileinka sér er í raun enn mikilvægara að þjálfarar tileinki sér. Þjálfarar eru hausinn sem þarf að vera sterkur. Það eru þjálfararnir sem þurfa að halda iðkendum sínum við efnið í samkomubanninu og það getur verið erfitt ef þeir eru ekki í góðu formi andlega. Þjálfarar ættu því að hugsa vel um sig, halda í rútínuna sína, sofa vel, borða vel, halda í samskipti við vini og ættingja, hreyfa sig, stunda útiveru og jafnvel kynna sér hugleiðslu. Þetta er lykilatriði til að þjálfarar geti staðið sig í því erfiða verkefni sem það getur verið að vera þjálfari í samkomubanni.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter