dawn-dusk-golf-33478
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Sálfræðin í golfi

Það má færa fyrir því rök að í engri íþróttagrein sé andlegur styrkur eins mikilvægur og í golfi. Margar íþróttagreinar eru þess eðlis að hægt er að bjarga sinni frammistöðu með því að berjast nægilega mikið, hlaupa nægilega mikið og setja nægilega mikinn kraft í sinn leik. Þetta eru hlutir sem þurfa ekki að krefjast mjög mikillar einbeitingar. Ég tek það fram að með þessu er ég ekki að segja að einbeiting sé ekki nauðsynleg í öllum íþróttum, því það er hún. Það sem ég á við er að í ákveðnum íþróttagreinum getur íþróttamaður sem finnur sig ekki einbeittan bjargað sinni frammistöðu með því að leggja aukinn kraft í sinn leik. Þetta getur golfari ekki gert. Golfari sem finnur sig missa einbeitingu verður að búa yfir þeim andlega styrk að geta náð upp einbeitingu aftur, að öðrum kosti fer frammistaðan út um gluggann.

Annað sem gerir andlegan styrk sérlega mikilvægan fyrir golfara er sú staðreynd að golfhringur getur tekið langan tíma og í fáum íþróttagreinum hefur íþróttamaðurinn eins mikinn tíma til að velta sér upp úr hugsunum sínum og í golfi. Þá er andlegur styrkur gríðarlega mikilvægur. Það er á þeim tímapunkti, þegar íþróttamaðurinn fær tíma til að beina athyglinni að hugsunum sínum, sem hann er í mestri hættu á að sökkva sér ofan í tilteknar hugsanir og leyfa þeim að ná stjórn á sér. Þá hefur íþróttamaðurinn tapað einbeitingunni. Í golfi er mikill tími sem fer í að ganga á milli högga og þá skiptir öllu máli að golfarinn viti hvernig eigi að nálgast hugsanir sínar og hafi þann andlega styrk sem þarf til að halda athyglinni á sínu leikskipulagi en að sökkva sér ekki ofan í hugsanir ótengdu því.

Loks er innri ró sérlega mikilvæg golfurum. Þegar íþróttafólk finnur fyrir pressu og mikið er undir bregst líkaminn gjarnan við með aukinni virkni. Vöðvar spennast, púlsinn hækkar og hjartsláttur eykst. Tæknileg atriði golfíþróttarinnar krefjast þess að golfarinn sé stöðugt yfirvegaður, að þessi aukna virkni sé í algjöru lágmarki. Því þurfa golfarar að kunna að halda líkamlegri yfirvegun þegar mikið er undir og pressan er mikil. Þessi líkamlega virkni er minna vandamál í ýmsum öðrum íþróttagreinum og í sumum hverjum má segja að íþróttafólk hafi jafnvel not fyrir þessa auknu líkamsvirkni upp að ákveðnu marki. Því er ekki eins mikilvægt fyrir það íþróttafólk að hafa stjórn á vöðvaspennu, púls og hjartslætti og það er fyrir golfara. Golfarar þurfa að kunna og geta notað hugrænar aðferðir til að slaka á vöðvum og halda líkamlegri yfirvegun. Því verulega aukin líkamsvirkni í kjölfar stress eða pressu getur haft slæm áhrif á frammistöðu golfara.

Eins og sjá má af þessari stuttu færslu er golf ein af þeim íþróttum þar sem andlegur styrkur er sérlega mikilvægur eiginleiki. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að golfarar leggi vinnu í að styrkja sína andlegu þætti. Að einbeitingaþjálfun fái ekki minni sess í æfingaáætluninni en aðrir þættir. Þeir golfarar sem ætla sér að ná árangri þurfa andlegan styrk.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter