farsímahome
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Íþróttasálfræðiráðgjafi

Stóra markmiðið

Á árunum 2012-2014 stundaði ég nám í íþróttasálfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Því meira sem ég lærði um fagið því betur rann það upp fyrir mér hversu stóran hluta íþróttaþjálfunar ég hafði farið á mis við sem handboltamaður.  Ég hafði æft handbolta í 19 ár frá 6 ára aldri og lagði skóna á hilluna þegar ég hélt út til náms 2012. Aldrei á ferlinum hafði ég kynnst hugarþjálfun að nokkru ráði eða fengið fræðslu um hugarfarslega þætti í íþróttum og reglulega fæ ég þá tilfinningu að þetta væri eins og að á 19 ára handboltaferli hefði ég aldrei heyrt minnst á líkamlega styrktarþjálfun. Flestir eru líklega sammála um að það sé fáránleg pæling. Á þessum tímapunkti þótti mér það jafn fáránleg pæling að hafa svo gott sem aldrei fengið vott af þjálfun eða fræðslu um hvernig styrkja mætti hugarfarslega þætti og ég styrkist enn í þeirri trú á hverjum degi.  Frá árinu 2014, þegar ég útskrifaðist með M.S. gráðu í íþróttasálfræði hefur það verið markmið mitt að gera hugarþjálfun að jafn reglulegum hluta af íþróttaþjálfun og styrktarþjálfun. Ég hef í raun brunnið fyrir það að ungt íþróttafólk fari ekki á mis við þann risastóra hluta íþróttaþjálfunar sem ég fór á mis við.

Tvö félög tóku af skarið

Á þessu ári hefur Haus hugarþjálfun tekið stórt skref í hugarþjálfun ungs íþróttafólks með metnaðarfullri vinnu hjá tveimur íþróttafélögum. Í upphafi árs tók knattspyrnudeild Sindra á Hornafirði stærsta skref sem nokkurt félag á Íslandi hefur tekið í vinnu með hugarfarslega þætti hjá sínum iðkendum og í kjölfarið fylgdi ÍBV með sömu vinnu fyrir iðkendur handknattleiksdeildar og knattspyrnudeildar. Prógrammið sem Haus hugarþjálfun fór með inn í þessi félög hefur verið í þróun um nokkurt skeið og er enn í stöðugri þróun. Unnið er af metnaði með þemun einbeiting, sjálfstraust og liðsheild þar sem markmiðið er að innleiða reglulega þjálfun þessara þátta inn í þjálfun iðkenda. Iðkendum eru veitt verkfæri sem þeim er ætlað að vinna með inni á æfingum og í keppnum, auk þess sem þjálfarar fá þjálfarahandbók og þjálfarafyrirlestra tengdu hverju þema fyrir sig um hvernig þeir geta best stutt við vinnuna inni á æfingum. Í vinnunni felast fyrirlestrar og styrktarprógrömm fyrir iðkendur, þjálfarahandbók og þjálfarafyrirlestrar auk þess sem hugarþjálfari kemur inn á æfingu sé þess óskað.

Staðan í dag og framhaldið

Það er skemmst frá því að segja að hjá félögunum tveimur sem hafa keyrt prógrammið í gegn hefur verið mikil ánægja með vinnuna hjá þjálfurum, iðkendum og foreldrum og hafa þjálfara haft á orði að mikill sýnilegur árangur sé af vinnunni. Enn fremur er það Haus hugarþjálfun mikil ánægja að tilkynna að ein deild og eitt íþróttafélag hefur nú þegar ákveðið að taka prógrammið inn í sína þjálfun en það eru körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og Ungmennafélagið Snæfell í Stykkishólmi. Þetta eru stór skref sem eru þessum tveimur íþróttafélögum til mikils sóma.

Haus hugarþjálfun hlakkar til að halda áfram að stuðla að því að vinna með hugarfarslega þætti verði reglulegur þáttur íþróttaþjálfunar og að þær kynslóðir sem eru að alast upp í dag sem ungt íþróttafólk þurfi ekki að uppgötva það við lok ferilsins að hafa farið á mis við þann risastóra þátt þjálfunar sem hugarþjálfun er.

Má ekki bjóða þér að deila pistlinum?

Share on facebook
Share on twitter