sean-benesh-l7vrOul-fdA-unsplash
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Hugarþjálfari

Takmarkanir foreldrahlutverksins

Í síðasta pistli var hlutverk foreldra í íþróttaiðkun barna gert að umræðuefni. Eins mikilvægt og það er að foreldrar séu með á hreinu hvað þeirra hlutverk felur í sér, er ekki síður mikilvægt að foreldrar átti sig á og virði takmarkanir hlutverksins. Því eins og í góðu liði er lykilleikmanninum ekki ætlað að leysa öll hlutverkin í liðinu, þvert á móti er mikilvægt að lykilleikmaðurinn gefi liðsfélögum sínum traust og svigrúm til að leysa sín hlutverk. Þannig getur lykilleikmaðurinn best einbeitt sér að því sem hann gerir best og þannig skilað sem mestu til liðsins. Segja má að í íþróttaiðkun barna og unglinga séu tveir lykilleikmenn, foreldrið og þjálfarinn. Til að iðkandinn fái sem mest útúr íþróttaiðkun sinni er mikilvægt að þessir tveir lykilleikmenn nái vel saman og gefi hvorum öðrum traust og svigrúm til að nýta þekkingu sína og hæfni í sínum hlutverkum. Ef foreldrar virða ekki mörkin um hvar þeirra hlutverk endar og hlutverk þjálfarans byrjar þá nær hvorugur þessarra lykilleikmanna að sinna sínu hlutverki eins vel og hægt er og það kemur niður á árangri og ánægju íþróttaiðkandans.

Mörk foreldrahlutverksins liggja til að mynda við æfingasvæðið. Þegar iðkandinn er kominn á æfingu tekur hlutverk þjálfara við af hlutverki foreldris. Þarna má segja að foreldrið sendi boltann á þjálfarann. Foreldrar eiga ekki undir neinum kringumstæðum að fara inn á æfingu til að gera athugasemdir við störf þjálfara eða skipta sér af uppsetningu æfingarinnar. Foreldrar eiga heldur ekki að gefa skipanir eða ábendingar til barna sinna meðan á æfingu stendur. Það getur tekið einbeitingu iðkandans algjörlega af æfingunni og haft þannig verulega truflandi áhrif á starf þjálfarans. Á æfingum geta foreldrar fylgst með úr hæfilegri fjarlægð og glaðst yfir afrekum og gleði barna sinna en öll samskipti við iðkendur ætti að geyma þar til æfingunni er lokið.

Annað dæmi um hvar mörkin milli foreldrahlutverks og þjálfarahlutverks liggja er nokkuð skýrt í keppnum og keppnisleikjum. Þegar iðkandinn er mættur til keppni er það þjálfarinn sem tekur við boltanum og nýtir sína sérfræðiþekkingu í sínu hlutverki. Hlutverk foreldra er að vera á áhorfendasvæðinu og sýna stuðning. Foreldrar eiga ekkert erindi nærri varamannabekknum í keppnum nema þess sé sérstaklega óskað af þjálfurum. Foreldrar eiga ekki á nokkurn hátt að skipta sér af uppstillingu liðs eða uppleggi þjálfara í keppni. Loks eiga foreldrar ekki að gerast sjálfskipaðir þjálfarar barna sinna í stúkunni meðan á keppni stendur. Þannig eiga foreldrar að láta allar leiðbeinandi skipanir til barna sinna eiga sig. Ástæðan fyrir því er sú að það er hlutverk þjálfarans að vera leiðbeinandi og gefa iðkendum skýr fyrirmæli í keppnum. Allar leiðbeiningar og skipanir úr stúkunni gætu stangast á við leiðbeiningar þjálfarans. Misvísandi skilaboð úr sitthvorri áttinni geta haft neikvæð áhrif á ánægju og frammistöðu iðkandans í keppninni. Þegar keppninni er lokið og þjálfarinn hefur rætt við liðið tekur foreldrið aftur við barninu og hjálpar því að vinna úr hvers kyns tilfinningum sem gætu hafa komið upp í keppninni.

Þó foreldrar séu án nokkurs vafa lykilleikmenn í íþróttaiðkun barna sinna er mikilvægt að þeir átti sig á því að íþróttaiðkun barna og unglinga er samvinna.  Þjálfarar eru einnig lykilleikmenn í þessari samvinnu og þessir tveir lykilleikmenn þurfa að þekkja sín hlutverk, einbeita sér að þeim og leggja fullt traust á hinn lykilleikmanninn í sínu hlutverki. Þannig virkar liðið best, og barnið fær sem mest útúr íþróttaiðkun sinni.

MÁ EKKI BJÓÐA ÞÉR AÐ DEILA PISTLINUM?