pexels-maria-lindsey-content-creator-5641090-scaled
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Hugarþjálfari

Vertu þinn besti liðsfélagi

Hér á síðunni má finna eldri pistil um mikilvægi þess að íþróttafólk þjálfi upp eiginleikann að vera góður liðsmaður. Kjarninn í pistlinum er að íþróttafólk í hópíþróttum þurfi að átta sig á mikilvægi liðsfélaga sinna í eigin árangri. Með þetta mikilvægi að leiðarljósi gera góðir liðsmenn allt sem þeir geta til að gera liðsfélaga sína eins góða og þeir geta mögulega orðið. Í þessu felst að góðir liðsmenn eru sérlega meðvitaðir um að öll samskipti við liðsfélaga og viðbrögð við mistökum liðsfélaga miði að því að hámarka sjálfstraust þeirra, því það er það mikilvægt fyrir árangur liðsins. Það sem ekki er rætt um í pistlinum er sú staðreynd að einn liðsfélagi er mikilvægari en aðrir. Það er leikmaðurinn sjálfur.

Um leið og íþróttafólk er oft mjög meðvitað um að tala á uppbyggjandi hátt við liðsfélaga sína, peppa þá upp og hrósa þeim fyrir það sem vel er gert, gleymir íþróttafólk gjarnan sjálfu sér, talar niður til sín og rífur sig niður fyrir mistök. Tökum dæmi. Fótboltamaður klikkar á vítaspyrnu og segir í kjölfarið við sig „Ég vissi það! Hverjum dettur í hug að láta mig taka víti. Ég skora aldrei og er núna örugglega búinn að klúðra leiknum fyrir liðinu mínu“. Með slíku sjálfstali er viðkomandi ekki að stuðla að því að hann mæti mjög öruggur á punktinn næst og jafnvel er leikmaðurinn líklegur til að beita öllum ráðum til að komast hjá því að fá dauðafæri aftur í leiknum því hann mun hvort sem er klúðra því og það vill hann ekki að liðsfélagar eða áhorfendur verði vitni að. Að öllum líkindum myndi þessum leikmanni ekki detta til hugar að tala á þennan hátt við liðsfélaga sinn sem myndi lenda í sömu aðstöðu, því jú, flestir gera sér grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir liðið að liðsfélögunum líði vel inni á vellinum og séu fullir sjálfstrausts. Íþróttafólk ætti að líta á sjálft sig sem sína mikilvægustu liðsfélaga og koma þannig fram við sig. Af hverju leggur fótboltamaður sig fram um að styðja við sjálfstraust 10 leikmanna fótboltaliðsins en ekki 11, körfuboltakonan 4 leikmanna körfuboltaliðsins en ekki 5 og handboltakonan 6 leikmanna handboltaliðsins en ekki 7? Af hverju gleymir íþróttafólk þessum eina leikmanni sem er liðinu samt svo mikilvægur?

Það er mikilvægt fyrir íþróttafólk að þjálfa upp eiginleikann að vera góður liðsmaður, en það má ekki gleyma sjálfu sér. Íþróttafólk þarf að þjálfa upp jákvætt sjálfstal. Það þarf að kyngja því að finnast erfitt eða kjánalegt að hrósa sjálfu sér. Jákvætt sjálfstal stuðlar ekki bara að bættri frammistöðu og vellíðan á vellinum heldur stuðlar það einnig að bættri andlegri líðan og vellíðan í eigin skinni. Ef þú kæri lesandi glímir við neikvætt sjálfstal skaltu markvisst reyna að verða meðvitaðri um það þegar þú rífur þig niður, reyna að minnka neikvætt sjálfstal og auka jákvætt sjálfstal hægt og rólega dag frá degi.

MÁ EKKI BJÓÐA ÞÉR AÐ DEILA PISTLINUM?