daniel-jimenez-DazNmzbwC1w-unsplash
Hreiðar Haraldsson

Hreiðar Haraldsson

Hugarþjálfari

Markmið í íþróttum: 5 hlutir sem þú þarft að vita

Árangur næst aldrei af tilviljun. Engin íþróttamanneskja hefur komist í landslið eða náð allt í einu afburðaárangri óvart. Árangur er alltaf afrakstur mikillar vinnu, yfir langan tíma, sem sprettur af mjög einbeittri sýn þinni á það sem þig langar að afreka. Þessi sýn er í daglegu tali kölluð “Markmið” og hér verður fjallað um 5 hluti sem þú þarft að vita um markmið í íþróttum til að þín markmiðasetning verði sem árangursríkust.

1. Markmið skerpa fókusinn þinn í daglegu lífi

Það mikilvægasta sem þú átt sem íþróttamanneskja er athygli þín, tími þinn og orkan þín. Allt í lífinu kostar þessa þrjá hluti og við eigum ekki endalaust af athygli, tíma og orku. Daglegt líf þitt er stútfullt af hlutum sem öskra stöðugt á þig að gefa sér athygli þína, tíma þinn og orkuna þína. Skólinn öskrar á þig að gefa sér athygli, tíma og orku þína en það gerir líka vinnan þín, íþróttin þín, áhugamálin þín, síminn þinn, samfélagsmiðlar, vinir þínir, fjölskyldan þín og jafnvel atburðir líðandi stundar. Þú ákveður hvaða hlutum þú gefur athygli, tíma og orku hvers dags. Að ná árangri í íþróttum krefst þess að þú notir töluvert af þessum þremur hlutum í sjálfsrækt og æfingar. Þegar þú notar athygli, tíma og orku í sjálfsrækt og æfingar færðu greitt til baka í formi árangurs og vellíðan. Í daglegu lífi er hins vegar auðvelt fyrir þig að gleyma þér og gefa stóran hluta af athygli, tíma og orku þinni í hluti sem gefa þér ekkert til baka og í sumum tilfellum skilja eftir sig vanlíðan hjá þér. Síminn þinn og samfélagsmiðlar er skýrasta dæmið um þess óæskilegu athyglis- tíma- og orkuþjófa. Skýr og vönduð markmið virka sem áttaviti fyrir athygli þína, tíma og orku. Sé markmiðasetning unnin vel minna markmiðin þín þig stöðugt á í hvað þú vilt raunverulega verja athygli þinni, tíma og orku og í hvað þú vilt alls ekki eyða þessum dýrmætu auðlindum. Þannig skerpa markmið fókusinn þinn í daglegu lífi.

2. Tilgangur markmiða er að drífa áfram vinnu sem skilar framförum

Ég ætla að taka dæmi um tvo hlaupara sem báðar hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á 60 mínútum. Báðar setja þær sér markmið um að gera betur að ári. Hlaupari 1 setur sér markmið um að ná að hlaupa 10 km á næsta ári undir 45 mínútum á meðan hlaupari 2 setur sér markmið um að hlaupa sömu vegalengd á undir 55 mínútum. Hlaupari 1 gerir sér grein fyrir því að hún þarf að leggja á sig töluvert meiri vinnu en hlaupari 2 til að ná sínu markmiði og er tilbúin til þess vegna þess að hana langar virkilega að ná þeim árangri að hlaupa 10 km á undir 45 mínútum. Báðir hlauparar byrja undirbúninginn fyrir næsta Reykjavíkurmaraþon og þegar kemur að hlaupinu sjálfu verður niðurstaðan sú að hlaupari 1 hljóp 10 km á 47 mínútum en hlaupari 2 hljóp á 53 mínútum. Hér er lykilatriði að hlaupari 1 horfi í að markmiðið sem hún setti sér dreif hana til að leggja á sig vinnu sem skilaði henni 13 mínútna bætingu á milli ára. Það er árangur sem hún ætti að vera verulega ánægð með.

3. Tilgangur markmiða er ekki að ná markmiðum

Ég upplifi það of oft í mínu starfi að hlaupari 1 í dæminu hér að framan myndi upplifa hlaupið sem vonbrigði og hafi neikvæða upplifun af eigin frammistöðu vegna þess að markmiðið náðist ekki á meðan hlaupari 2 væri í skýjunum og ánægð með sjálfa sig. Þegar horft er á árangur hlauparanna tveggja utan frá sjáum við hins vegar að hlaupari 1 bætir tíma sinn um 13 mínútur á meðan hlaupari 2 bætti tíma sinn um 7 mínútur. Þetta er hins vegar staðreynd sem hlaupari 1 hunsar gjarnan fullkomlega og einblínir of oft á þær 2 mínútur sem vantaði upp á að markmiðið næðist frekar en 13 mínútna bætinguna sem þrotlaus vinna hlauparans skilaði henni. Hér er mikilvægt að þú metir eigin árangur útfrá vinnunni sem þú hefur unnið og árangrinum sem vinnan skilaði þér frekar en hvort markmiðið hafi náðst eða ekki því vinnan er tilgangur markmiðasetningarinnar en ekki checkmerkið fyrir aftan markmiðið.

4. Þú þarft ekki að óttast háleit markmið

Við skulum halda áfram með dæmið af hlaupurunum tveimur. Hefði hlaupari 1 sett markið lægra og ætlað sér að hlaupa kílómetrana 10 á 50 mínútum í stað 45 er líklegt að þegar það markmiðið var í höfn hefði hægt verulega á framförum hlauparans og hvatinn til að leggja á sig meiri vinnu til að ná meira en 10 mínútna bætingu hafi ekki verið til staðar. Hlauparinn hefði að öllum líkindum ekki náð 13 mínútna bætingunni því markmiðinu um 10 mínútna bætinguna var náð og hlauparinn því orðin sátt við sitt. Háleit markmið toga okkur eins langt og við mögulega komumst. Þegar þú skilur að árangur ætti ekki að mæla útfrá því hvort markmið hafi náðst eða ekki heldur hversu langt markmiðið togaði þig og hversu mikla vinnu þú lagðir á þig ættir þú ekki að þurfa að óttast það að ná ekki markmiði, því árangursríkustu markmiðin eru einmitt markmiðin sem við náum alls ekki alltaf.

5. Þú verður að trúa því að þú getir náð markmiði þínu

Til þess að markmiðin þín drífi þig áfram til að leggja á þig vinnu, sem er jú megintilgangur markmiðasetningar, þá verður þú að trúa því af fullri einlægni og sannfæringu að þú getir náð markmiðunum þínum með þeirri vinnu sem þú ert tilbúin að leggja á þig. Ef trúin á að þú getir náð markmiðinu er ekki til staðar þá mun markmiðið ekki hafa þá hvatningu í för með sér sem við viljum að það hafi. Þá er skynsamlegra og árangursríkara að hætta við markmiðið sem þú trúir ekki að þú getir náð og setja þér nýtt markmið sem þú trúir af öllu hjarta að þú getir náð. Þannig fer markmiðið aftur að ýta þér áfram og hafa þau áhrif sem við viljum.  Það er því mikilvægt að þú hafir hugrekki til að endurskoða markmiðin þín og setja þér ný markmið þegar þér finnst þau vera horfin þér úr augnsýn. Það er ekki veikleikamerki að hætta við markmið og setja sér hófstilltari markmið heldur þvert á móti merki um hugrekki og skynsemi.

Haus hugarþjálfunarstöð leiðir þig í gegnum þína persónulegu markmiðasetningu skref fyrir skref og færir þér æfingatæki sem hjálpar þér að setja markmiðasetninguna þína upp á skýran hátt. Kynntu þér Haus hugarþjálfunarstöð hér.

MÁ EKKI BJÓÐA ÞÉR AÐ DEILA PISTLINUM?